In Heilsublogg

Heilsa okkar og vellíðan skiptir verulegu máli. Horfum á elliheimilin. Þar er mikið af fólki á aldrinum 70 – 90 ára sem þarf hjálpartæki til að komast um. Það nýtur ekki lífsins til fullnustu. Svo er til fólk sem nær tíræðisaldri og er enn með bílpróf. Hvar viljum við vera þegar aldurinn færist yfir? Það er okkar að stuðla að því að eldast vel og hafa möguleika á því að njóta lífsins þegar aldurinn færist yfir. Þetta er undir okkur komið. Heilbrigður lífstíll skiptir máli. Heilbrigður lífstíll gerir okkur kleift að lifa lengur og við betri skilyrði. Það er auðvitað engin trygging því genin ráða miklu. En hver vill ekki sækja sér von um betra líf í ellinni? Málið er að taka heilsuna í sínar hendur. Axla ábyrgð á eigin heilsu og hætta að varpa ábyrgðinni á herðar annarra sem hvort eð er taka ekki þann bolta fyrir aðra. Lifa við gott og heilbrigt mataræði, hreyfingu og lágmarka lyfjanotkun. Það er líka mikilvægt að huga að umhverfinu. Kemískum efnum inni á heimilum, myglu, eiturefni í matvælum og fleira. Engin spurning að þetta flækir lífið aðeins en það er ábyrgðarlaust að mæta eigin velferð með tómlæti.

Það er margt að breytast í umhverfi okkar og atferli. Breyttir siðir, breytt mataræði og aðrar venjur. Töluvert ólíkt því sem foreldrar okkar og forfeður ólust upp við. Flest er jákvætt. Lífið er auðugra af tækifærum, nógur matur og mikil gæði í boði. Heilbrigðisþjónusta fyrir alla og hlý hús með gnótt orku til allar hluta. 

Við erum þó komin dálítið langt frá náttúrunni  Matvæli eru meira unnin og umhverfi okkar ríkara af kemískum efnum, efnaryki og mengun. Fjarskipti og rafmagn hefur fært okkur fjölbreytt úrval af ójónandi geislun og ekki á hreinu hver áhrifin eru. Mannslíkaminn er kannski ekki að öllu leyti tilbúinn til að takast á við þessar breytingar. Það er staðreynd að óþol og ofnæmi hverskonar er vaxandi vandamál. Baráttan við illvíga sjúkdóma eins og krabbamein er ekki að ganga nógu vel. Streitan er meiri, hraðinn mikill og kröfurnar miklar. Kemísk efni geta safnast upp í líkama okkar, líkaminn kann ekki að meðhöndla sum efni eins og t.d. þungmálma og plastefni. Afleiðingarnar eru að miklu leyti óþekktar. Glíman við myglu er sérkennilegt vandamál. Af hverju gýs þetta vandamál upp undanfarin 15 ár. Hefur þetta verið undirliggjandi undanfarin árhundruð og bara ógreint?

Það er engin leið að glíma við þessi vandamál nema með opnum huga og leit. Læknavísindin hafa því miður ekki öll svör og ekki dugir að bíða þar til vísindin koma með lausnina. Það getur tekið mannsaldur.

Það er margt sem við vitum að hjálpar. Gott mataræði með gnógt grænmetis. Hófleg hreyfing. Andleg iðkun eins og jóga og íhugun. Verum skynsöm og stefnum að góðu og innihaldsríku lífi. Leitið og þér munuð finna.

Nýlegar færslur
Hafðu samband

Við erum ekki við eins og er, en sendu okkur skilaboð og við höfum samband.